SVARTARI eða BETRI kímnigáfa - Bærinn er skrítinn

Hver skilur til fulls borgarstjórnarmálin í borginni okkar? Og hvað með kímnigáfuna? Hugsum um húsin í miðborginni. Hugsum um Sirkus. Öll þessi gömlu hús ... Allar þessar lóðir. Hvað á að fara að byggja?
Í Fögra veröld Tómasar Guðmundssonar er ljóð sem heitir einfaldlega Húsin í bænum og byrjar svona:

Bærinn er skrítinn. Hann er fullur af húsum.
Hús meðfram öllum götum í röðum liggja.
Aldraðir byggja og ungir menn kaupa lóðir
og ætla sér líklega að byggja.

Skyldi nokkur þjóð hafa svartari eða betri kímnigáfu en við? Ef borgarstjóra þykir hafa verið vegið að sér og sínum, lætur hann það í ljósi. Það er eðlilegt. Margir tjá sig um brandarana í Spaugstofunni. Strákarnir/ karlarnir í Spaugstofunni eru ekki alltaf strákarnir okkar. Sjónvarp er skrítið fyrirbæri rétt einsog bærinn okkar. Einu sinni held ég að ég hafi verið eina manneskjan á landinu sem hafði aldrei horft á þáttinn Innlit útlit. Núna hef ég horft á hann nokkrum sinnum og líka Allt í drasli. Hef aldrei horft á þætti sem heita Trúður. Kynningin er að mínu áliti ekki fyndin þessa vikuna. Einhver kall að lyfta sænginni sinni og búinn að skíta á sig. Sjúkt? Fyndið? Veit ekki út á hvað þessir þættir ganga. Kannski þykir mörgum gaman að horfa á þá. Kynningin gerir mig staðfasta í þeirri ákvörðun minni að hætta næstum alfarið að horfa á sjónvarp. En ekki Spaugstofuna. Held að það sé eitthvað til í því að kímnigáfa geti hjálpað til að eyða fordómum. Okkur er ekki sjálfrátt þegar kímnigáfan er annars vegar, það er að segja: Hvað okkur finnst fyndið. Hvítur sloppur. Grátt skegg. Kúkú-kúkú- sömuleiðis, sömuleiðis. Skrítið atriði. Ég ætla náttúrlega ekki að hætta að horfa á fréttir og fréttaskýringaþætti á þeim sjónvarpsstöðvum sem ég er með heima hjá mér. Fréttatíminn á TVE var nýverið stútfullur af myndskeiðum frá karnevali á Tenerife. Þar var hin ítalska og ofurfagra Sophia (73) með glæsileg ný gleraugu fremst í flokki. Sumt er ómissandi í lífinu. Og sumt er erfitt að standast þótt flest sé auðvitað best í hófi.

Minni mig reglulega á eftirfarandi línu sem Bowie syngur á sinn dásamlega og einstaka hátt í China girl:

I´ll ruin everything you are, I´ll give you television.


Kristalsströndin og ógleymanlegur svefn undir berum himni

Midjardarhafid heillar. Fórum til Nerja í stutta ferd. Ég svaf undir berum himni í Nerja í 7 daga samfleytt fyrir 20 árum. Allt er byrjad ad rifjast upp. Ég bjó líka um mig inni í sjálfum Alhambragardinum, en ég var alein á tveggja vikna ferdalagi um Andalúsíu. Fyrir 20 árum var hótel inni í Alhambra og ég kynntist t.d. fólki í Moon söfnudinum, listmálara og einnig trúdapari í Nerja á Balcon de Europa! En vid kynnumst audvitad fleira fólki ein á ferdalagi ...

Fannst í Nerja ég einfaldlega vera stödd í kvikmyndinni Blue Lagoon. Paradís. Algleymi. Slík ord voru notud um Nerja af stelpunum mínum. Og ekki voru stelpurnar sídur kátar ad sjá gamla hostelid sem ég dvaldi á fyrir tveimur áratugum:)

Ferdalagid heldur enn áfram og bloggvinir verda ad afsaka hve sein ég er til svars vegna ferdaflansins á okkur hér í Andalúsíu. Ég safna í sarpinn og skrifa í dagbókina mína med svörtum pilopenna í stadinn! Bestu kvedjur í bili, Margrét (MargarítaCool) Lóa


Barn sem slegið er með skó?

Lítið barn sem slegið er með skó - eða er barið reglulega? Barn sem er beitt ofbeldi er alltaf hrætt, augasteinarnir eru kvikir og sérhver lína í andlitinu þráir vernd. Ástúð.

Allar þessar líkingar og myndir sem flögra um í huga manns á venjulegum degi. Mér finnst sem Suðurlandabúar upp til sveita séu á stundum afar frumstæðir í uppeldismálum. Þeir trúa því líka að sykur sé meinhollur. Flestir nota helming af sykri á móti kaffi. Og kókómalt er vinsælasti barnadrykkurinn ef marka má auglýsingarnar (að sjálfsögðu helmingur af mjólk á móti sykurkakódufti!) en svo kyssa Spánverjar líka krakkana sína í tíma og ótíma og gera þá dúkkulega á kvöldin. Einsog í auglýsingum frá 1960. Tírólastíll fyrir drengina, iðulega í pastellitum. Hvítir sokkar og prinsessukjólar fyrir stelpurnar - að ógleymdum öllum slaufunum og borðunum.

Og svo mega börnin reyndar ekki trufla. Sem minnir mig á rithöfundinn Vigdísi Grímsdóttur. Ein af mínum uppáhaldsetningum eftir hana er á þessa leið:

Börn trufla ekki. Börn eru líf.

Framhaldið er ennþá fallegra, Vigdís talar um að það sé dauðinn - og hans hrifsikrumla - sem skekur allt ...

En hversvegna er fyrirsögnin á þessari færslu: Barn sem slegið er með skó? Ástæðan er einfaldlega sú að ég varð vitni að því í gærkvöldi að barn var hirt og slegið með inniskó. Hvað annað gat ég sagt en að vitna á eins fínlegan hátt og mér er unnt í áðurnefnd orð Vigdísar? Barsmíðarnar stöðvuðust og barnið settist hjá mér. Ég byrjaði auðvitað að reyna að sýna barninu vinsemd og ástúð sem endaði með því að það sofnaði í fanginu á mér. Ég verð stundum vitni að heimsku og ljótleika og finn þá einsog allir aðrir - að það er svo ósköp fátt sem hægt er að gera. Annað en þetta vanalega: Að reyna að láta gott af sér leiða. Reyna að vera almennileg manneskja.


VÍNGLAS undir VÍNBERJATRÉ, verde que te quiero verde ...

Ég fór í Lorcagarðinn í Granada í seinustu viku, lystigarð sem er veglegur minnisvarði fyrir Federico og hugsaði um þessar línur sem allir Spánverjar þekkja: Verde que te quiero verde, verde viento, verdes ramas.

Núna bý ég í fjallaþorpinu Castil de campos í Córdoba ásamt fjölskyldu minni. Vinnuherbergið mitt er með útsýni yfir gjörvalla sveitina. Við sjáum sólarlagið af veröndinni okkar. Ég vakna oft við sólarupprásina og horfi á falleg fjöll og ólífutré svo langt sem augað eygir. Stundum vaki ég heila nótt og fylgist með því þegar dagurinn byrjar að fæðast bakvið ólífufjöllin og hlusta um leið á hanagal og hundagelt ...

Vínglas undir vínberjatré kostar aðeins 90 cent og ég er búin að komast að því að tóbaksdemóninn alræmdi er af suðrænu bergi brotinn. Með smáflugur á hverjum fingri sitjum við stundum á útsýnishæðinni okkar hér í Castil. Hér eru annars engir ferðamenn nema við sem sporðrennum risarækjum með góðri lyst. Að risarækjum gleyptum pöntum við okkur meira að drekka og í kjölfarið birtist bústinn bareigandi með pattaralega tortilla-bita á diski:)
Hér er endalaust verið að færa okkur tapas. Vino tinto de verano er svalandi í sólinni en hér getur hitinn farið vel yfir 40 stig. Andalúsíubúar kunna að njóta lífsins og stundum er erfitt að fá að borga fyrir krásirnar. Hér vill fólk allt fyrir mann gera, það eru vissulega orð að sönnu og ég velti því fyrir mér hvernig standi á því að allir virðast svo æðrulausir og hamingjusamir hér í sólinni þar sem fátt er við að vera annað en að sitja og spjalla. Kjagandi og brosmildar ömmur knúsa barnabörn meðan fólk á mínu reki siglir um á veröndum og vökvar pelargóníurnar sínar. Allir virðast hafa nógan tíma til að njóta lífsins í þessu kyrrláta þorpi. Er annars að lesa To the lighthouse eftir Virginu Woolf og að hugsa um venjulegan huga á venjulegum degi. Venjulegan huga á degi sem nákvæmlega þessum.


DÝPSTA SÆLA OG SORGIN ÞUNGA - Jafnréttissinni eða: Femínisti???

 

Þetta er vel til fundið hjá strákunum! Þeir eru kúl þessir femínistastrákar. Komst ekki á fundinn en kem pottþétt næst. Jafnréttissinni - Femínisti?Fólk er mikið að bögglast með þessi orð og lætur jafnvel neikvæð orð falla um femínista einsog þeir séu eitthvert eitt stórt reiðiský!!!??? Sumir femínistar eru algjörir sprelligosar, aðrir töluvert alvarlegri - þeir eru bæði fjölbreytilegir og ákaflega jafnréttissinnaðir einsog allir heilvita menn og konur játa sig vera - þegar á þá er gengið. Þetta merkir í rauninni alveg hið sama. Kannski að forskeytið femín- trufli, einsog það er nú annars fallegt.Cool Já. Karlkyns femínisti er allavega mjög kúl - hann vill bara jafnrétti einsog við öll hin, í verki, til dæmis jöfn laun fyrir mömmu sína - eða dóttur. Hver vill það annars ekki? En nú er töluvert að þokast í launamálum vonum við, það er auðvitað hryggilegra en tárum taki að greiða mönnum ekki sömu laun vegna kynferðis þeirra. Ólöf frá Hlöðum orti þetta stórkostlega kvæði um sælu og sorg - sem fer hér á eftir. Ef maður kynnir sér sögu skáldkonunnar skynjar maður að hún hefur verið djúphugull femínisti.

 

Dýpsta sæla og sorgin þunga

svífa hljóðlaust yfir storð.

Þeirra mál ei talar tunga

tárin eru beggja orð


mbl.is Klámkvöld í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GONG,GONG - Pongadong!

KVALIR og hvalir ...

Samtökin ætla að leita sér lögfræðiaðstoðar vegna þess fjárhagslega tjóns ... Erum við með fordóma - eða eru aðrar þjóðir hugsanlega með fordóma gagnvart okkur? ,,Svo virðist sem það að vera tengdur klámi sé orðið að nýjum lögum á Íslandi sem kveða á um að slík manneskja megi ekki vera í landinu. Landi sem hefur meiri áhyggjur af því, að konur fari úr fötunum af fúsum og frjálsum vilja án þrýstings eða hótana, en útrýmingu dýra eins og hvala!" segir talsmaður klámfólsksins. Þessi yfir-sig-undrandi Ponga. Gong, gong -pongadong!  Erum við einhverskonar barbarar út af hvaladrápi? Og þessi ímynd - af heita skemmtanalífinu hér á landi? Lausláta skemmtanaóða fólkinu? Var ekki löngu tímabært að hrófla aðeins við þeirri óþolandi ímynd? Er ekki einmitt í kjölfar fjaðrafoksins út af þessari klámráðstefnu kominn tími á alvarlega ímyndastúdíu fyrir land og þjóð? Er ekki annars dálítið desperat hvernig fyrirtæki þessa ágæta lands hafa verið að klína uppá okkur þessum hráblauta skemmtanasjúka lauslætishjúp ... fyrir einhverja skítna monnípeninga!Bandit  Glæpsamlega lásí og sjálfsvirðingarlaus markaðshyggja - ef þið spyrjið mig:)


mbl.is Klámframleiðendur ætla að leita lögfræðiaðstoðar vegna fjárhagslegs tjóns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábærlega flott Britney!

Já. Frásagnir herma að poppprinsessan Britney Spears hafi skráð sig út af meðferðarstofnun tæpum sólarhring eftir að hún skráði sig inn ...

KANNSKI er Britney bara á leið í eftirmeðferð? Hver veit. Stend allavega með henni - í anda. Mér finnst gaman þegar fólk breytir til. Hverjum finnst það ekki? Britney er bæði sæt og kúl núna og dálítið pönkuð meira að segja. Fínn pistill eftir Dr. Gunna í Fréttablaðinu í dag (minni lesendur líka á að lesa sér til um Dr.Annie Sprinkle ef þeir þekkja ekki til þeirrar athyglisverðu konu.) ,,Næst sjáum við hana(þ.e. Britney) vonandi með kafloðna krika á rauðsokkufundi"  segir Dr.Gunni. Ég myndi mæta!ML:)


mbl.is Britney sögð hafa staldrað stutt við á meðferðarstofnun í Malibu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KONA DAGSINS: DR. ANNIE SPRINKLE (EKKI SPEARS)

LIFI kvenfrelsi! Lifi jafnrétti og bræðralag! Lifi Ísland! Þeir sem ekki hafa lesið bókina Angry Women ættu að mínu viti að næla sér í hana einsog skot og finna um leið brjálaðan femínisma seytla um í blóði sínu. Annie Sprinkle er listamaður en var áður í klámbransanum. Áður? Í það minnsta er Annie einkar hress og áhugaverð listakona. Á vefsíðu hennar kemur fram að hún sé PhD in human sexuality:

WHY am I so interested in sex? Why have I devoted thirty years to exploring it relentlessly? Because sexuality is not only something that can be used for the enhancement of an intimate relationship, for physical pleasure or procreation. It can also be used for personal transformation, physical and emotional healing, self-realization, spiritual growth, and as a way to learn about all of life… and death. I want to help our society mature and evolve sexually, and be a safer place. My motto is: Let there be pleasure on earth, and let it begin with me. Dr. Annie Sprinkle

 


Góðir saman

 

                                            

BROT DAGSINS - tileinkað hetjum sem stíga fram og segja frá

 

þeir dagar

þeir dagar

ég gerði mér kórónu úr skýi

Brot dagsins er tilvitnun í Nínu Björk Árnadóttur úr ljóðinu Kóróna úr skýi sem er að finna í bókinni Svartur hestur í myrkrinu - og er umrætt ljóð ort til skáldsins Stefáns Harðar. Í dag langar mig að tileinka Tilvitnun dagsins hjá mér (sem er þó alls ekki hér á hverjum degi!) þeim hetjum sem hafa stigið fram og sagt frá dvöl sinni á Breiðuvík.   

Við eigum að gera allt sem við getum fyrir þá sem voru vistaðir á heimilinu! Peningar bæta ekki fyrir svona hluti en þeir koma sér alltaf vel. Og það þurfa þá auðvitað að vera upphæðir sem fólk munar eitthvað um. Þeir menn sem stíga fram og segja frá veru sinni á þessu kaldranalega og afskekkta heimili eru hetjur. Kastljósfólkið stendur sig einnig ákaflega vel. Við eigum öll að hugsa fallega til þeirra sem hlutu skaða af dvöl sinni á drengjaheimilinu og senda þeim jákvæða orku. Á þessum línum endar Kóróna úr skýi eftir Nínu Björk:

 

                              ég sliti lokka úr hári mínu

                                     að spinna ljóðheim

                                     að spinna okkur ljóðheim

                                     í birtuna


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband